
Matgæðingurinn María Ragnarsdóttir hefur ferðast um þvera og endilanga Ítalíu. Á endanum fann hún draumastaðinn, í Langhe héraði í Piemonte.
Mikil ævintýraþrá einkennir líf Maju og hún lifir lífinu með það að markmiði að staðna ekki heldur prufa nýja ögrandi hluti, fara út fyrir þægindarammann og leita að nýjum og spennandi upplifunum. Henni líður best þegar hún hefur nóg að gera og plana.
,,Þegar ég kom fyrst til Langhe vissi ég strax að þarna var staðurinn sem ég hafði leitað að. Ég féll fyrir landslaginu, matarhefðinni, vínræktinni og hinni einstöku gestrisni Piemontese-fólksins. Í Langhe héraðinu fann ég Casa Maja – mitt ítalska heimili, þar sem ég get sameinað ást mína á því að ferðast, á hjólreiðum, menningu, mat og víni - með því að taka á móti fólki og deila þessari dásamlegu upplifun.”
Casa Maja er lítið fjölskuldurekið fyrirtæki. Maja sjálf sér um stærstan hluta leiðsagnarinnar og allt ferðaskipulagið enda hefur hún einstaka þekkingu á svæðinu og persónulega tengingu við fólkið í sveitinni.
Maju innan handar eru svo innfæddir og íslenskir snillingar sem sjá um að upplifunin verði ógleymanleg.
Við elskum að framreiða mat en ekki síður borða hann. Svæðið okkar er þekkt fyrir einstaka matarhefð, frjósaman jarðveg og heimsþekkta uppskeru. Þar ber helst að nefna Nebbiolo þrúguna, heslihneturnar og ekki má gleyma hinum einstöku hvítu trufflum.
Við veljum veitingastaði af kostgæfni auk þess að bjóða í veislur heima í Casa Maja þar sem Maja sjálf sér um matreiðsluna á sinn einstaka hátt.
Okkur þykir ekki síður skemmtilegt að skoða hvernig maturinn er búinn til svo við leggjum mikið upp úr því í ferðum okkar að sækja hráefnið saman og heimsækja framleiðendur. Ostagerðarfólkið, vínbændurnir, veiðimennirnir, slátrarinn og grænmetisbændur eru okkar bestu vinir.
Samfélagið við sveitungana er okkur mjög kært og vinnum við mikið með nágrönnum okkar. Þetta skapar einstaka tengingu við svæðið og upplifun hjá okkar gestum sem er engu lík.
Í Langhe er sterk hefð fyrir allskyns matarmörkuðum. Á hverjum degi er hægt að heimsækja framleiðendur í mismunandi þorpum og sækja ferskasta hráefnið hverju sinni. Auk þess eigum við heimangengt á hinum og þessum býlum þar sem við fáum að skyggnast inn í framleiðsluferlið.
Því er oft fleygt fram að sveitin okkar og bæirnir í nágrenninu á borð við Bra séu vagga slow-food menningarinnar. Hreint hráefni og rekjanleiki skipta mestu máli ásamt því að vera hreinlega ekkert að flýta sér.
Í öllum okkar ferðum leggjum við að sjálfsögðu áherslu á áreiðanleika en á sama tíma erum við aldrei að flýta okkur. Við eigum það til að breyta tímasetningum og beygja til vinstri frekar en hægri allt eftir því hvernig hópnum líður hverju sinni.
Ferðumst rólega yfir, borðum gott og njótum augnabliksins!





